Höskuldur Ólafsson, forstjóri Arion banka, vill hagræða frekar í rekstri bankaútibúa með sjálfvirkum útibúum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Stóru bankarnir hafa allir opnað sjálfvirk útibú og bendir Höskuldur á að 40% þeirra sem komi í útibú bankans komi þangað til þess að taka út peninga. Slíkt sé unnt að gera sjálfvirkt.

„Það er einfaldlega þannig að sumt af þeirri hefðbundnu þjónustu sem við erum að bjóða hjá gjaldkerum er þjónusta sem hægt er að framkvæma með einfaldari og ódýrari hætti,“ segir Höskuldur. Segir hann þó einnig mögulegt að taka hærra gjald af þeim sem nýti sér þjónustu starfsmanna útibúa, og það sé eðlilegt að fólk fái að velja um gjaldkeraþjónustu eða sjálfvirka þjónustu.

„Það er dýrara að fá þjónustu í gegnum til dæmis gjaldkera heldur en í gegnum vélbúnaðinn sem er mjög aðgengilegur þannig að þetta mun þróast í það að fólk fær að velja um það að greiða heldur meira fyrir að fá afgreiðslu hjá gjaldkera og minna eða ekkert fyrir að afgreiða sig sjálft. Aðalatriðið er að þetta sé sanngjarnt og valkvætt og við munum alltaf hafa það að leiðarljósi að kúnninn fá að velja,“ segir Höskuldur í samtali við Fréttablaðið.