Greiða verður hærra iðgjald í lífeyrissjóði starfsmanna í einkageiranum og opinberir starfsmenn fara seinna á eftirlaun gangi eftir hugmyndir nefndar sem vinnur að samræmingu lífeyrisréttinda. Lífeyrisaldur mun síðan breytast með hækkandi lífaldri, að því er segir í frétt Ríkisútvarpsins.

Fulltrúar vinnumarkaðarins, ríkis og sveitarfélaga hafa reynt að ná samkomulagi um hvernig sé hægt að samræma lífeyriskjör opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almennum vinnumarkaði. Nefndin er sögð sammála um framtíðarsýn í þessum efnum.

Þær breytingar sem lagt er upp með eru samkvæmt upplýsingum fréttastofu Ríkisútvarpsins meðal annars að hækka iðgjaldið í almenna kerfinu og hækka lífeyrisaldur í opinbera kerfinu. Iðgjaldið yrði þá í báðum kerfum 15,5%. Þá yrði horfið frá svokölluðu stigakerfi yfir í aldurstengt kerfi í opinbera kerfinu. Lífeyrisaldur yrði þá almennt 67 ár bæði í opinbera- og einkageiranum. Eftir því sem lífaldurinn hækkar myndi lífeyrisaldurinn breytast með.

Vonast er til að nefndin sem hefur haft þetta verkefni á sinni könnu geti skilað af sér niðurstöðum fyrir haustið eða áður en samningalota hefst vegna nýrra kjarasamninga.