Matsfyrirtækið Moody´s hækkaði nýlega lánshæfismat Íslands í A3, sem er það hæsta sem það hefur verið síðan fyrir hrun.

Athygli vekur að það er sama lánshæfismat og Lettland er með, en hins vegar er ávöxtunin af lettneskum ríkisskuldabréfum til 10 ára rétt rúmlega 0,5% meðan hún er 5,3% á íslenskum skuldabréfum.

Þetta er eitt af því sem Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, fjallaði um í nýlegum pistli á mbl.is . Bendir hann jafnframt á að ávöxtunin á portúgölskum ríkisbréfum sé 3,0% á ári meðan lánshæfið sé í BB, sem er ruslflokkur.

Lág ávöxtunarkrafa í alþjóðlegum samanburði

Ávöxtunarkrafa íslenskra ríkisskuldabréfa er því lág í alþjóðlegum samanburði, jafnvel ef tekið væri tillit til hugsanlegrar verðbólgu, sem er afar lág á þessum samanburðarsvæðum sem hér eru nefnd.

Ávöxtunarkrafan sé há hér á landi því að raunvextir séu í kringum 3% meðan hún sé einfaldlega ekki fyrir hendi í flestum öðrum ríkjum með ásættanlega lánshæfiseinkunn.

Enn frekari fjárfestingar líklegar

„Þetta skýrir vel af hverju erlendir fjárfestar hafa í auknum mæli farið að fjárfesta í íslenskum ríkisskuldabréfum undanfarin misseri. Með enn frekari liðkun á afnámi hafta er líklegt að erlendir fjárfestar auki enn frekar fjárfestingar sínar í íslenskum skuldabréfum,“ segir Már.

„Það innstreymi á gjaldeyri, auk alls þess gjaldeyris sem nú kemur til Íslands í gegnum ferðamenn sem veitir Seðlabankanum aukið rými til að greiða niður erlendar skuldir, styrkir efnahag Íslands og einnig íslensku krónuna, sem dregur úr verðbólgu og því einnig því verðbólguálagi sem er falið í óverðtryggðum skuldabréfum.

Ekki er hægt annað en að gera ráð fyrir að afnám hafta auki enn frekar á eftirspurn skuldabréfa með samsvarandi lækkun ávöxtunarkröfunnar.“