Heildarskuldir ríkissjóðs námu 1.897 milljörðum króna í lok mars á þessu ári. Það jafngildir 105,4% af áætlaðri landsframleiðslu. Þrátt fyrir að tekjuafkoma ríkissjóðs hafi batnað á milli árs var tekjuhallinn 1,9% af landsframleiðslu og hrein peningaleg eign 104 milljörðum verri á fyrsta ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í Hagtíðindum Hagstofunnar að tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 8,1 milljarð króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er 3,7 milljörðum krónum betri niðurstaða en á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í tölunum af tekjuafkoma hins opinber hafi ekki verið hagstæðari síðan á öðrum ársfórðungi 2008. Heildartekjur námu 178,7 milljörðum króna samanborið við 160,8 milljarða í fyrra. Tekjuhækkunin skýrist öðru fremur af átta milljörðum króna aukningu í tekjusköttum, fjögurra milljarða aukningu í vöru- og þjónustusköttum og tveggja milljarða aukningu í rekstrartekjum.

Á sama tíma hækkuðu heildarútgjöld hins opinbera um 8,2% á sama tíma. Þau fóru úr 172,6 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi í fyrra í 186,7 milljarða á þessu ári.