Hagnaður Allianz á árinu 2014 nam rúmum 77 milljónum króna og jókst um 24 milljónir króna milli ára. Tekjur félagsins jukust um 34 milljónir frá fyrra ári, þrátt fyrir ágreining við Seðlabankann.

Sumarið 2014 breytti Seðlabankinn áliti sínu á því hvort starfsemi Allianz á Íslandi heyrði undir gjaldeyrishöft. Þetta leiddi til tímabundins samdráttar í rekstri félagsins. Seðlabankinn og Allianz í Þýskalandi komust þó að samkomulagi á haustmánuðum sem eyddi þessari óvissu.

Afkoma Allianz var 29 milljónum betri en á fyrra ári og skýrist það af tekjuaukningu og lækkun á kostnaði. Eignir félagsins nema rúmum 443 milljónum, bókfært eigið fé í árslok var tæpar 343 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall félagsins því 77%.

Hluthafar í félaginu voru tveir í lok árs, Hringur - Eignarhaldsfélag ehf. með 99,7% hlut og SVP fjárfesting ehf. með 0,3% hlut.