Langstærsta sumarbústaðabyggð landsins er á Suðurlandi og í samanburði við aðra landshluta er meðalverðið hæst þar. Frá árinu 2010 hefur meðalfermetraverð á sumarbústöðum á Suðurlandi hækkað um tæplega 44%. Frá árinu 2014 nemur hækkunin 20%.

Viðskiptablaðið skoðaði meðalverð á sumarbústöðum á Suðurlandi, Vesturlandi og Norður- og Austurlandi.  Tölurnar byggja á upplýsingum úr nýrri verðsjá Þjóðskrár Íslands en þær upplýsingar byggja á þinglýstum kaupsamningum fasteigna. Ástæðan fyrir því að Norður- og Austurland eru tekin saman er að Þjóðskrá birtir einungis upplýsingar um verð ef þremur eða fleiri samningum hefur verið þinglýst á því tímabili sem skoðað er og almennt eru ekki mikil viðskipti með sumarbústaði í þessum landshlutum. Þetta er sömuleiðis ástæðan fyrir því að hér eru ekki birt verð á sumarbústöðum á Vestfjörðum og Suðurnesjum.

Kiðjabergið dýrast

Á Suðurlandi er hæsta fermetraverðið í Kiðjabergi en á síðustu tólf mánuðum er meðalverðið þar 380 þúsund krónur fermetrinn. Það verð byggir á sex þinglýstum kaupsamningum. Næst hæsta fermetraverðið á Suðurlandi er við Álftavatn. Á síðustu tólf mánuðum hefur fjórum kaupsamningum verið þinglýst vegna sumarbústaða þar og er meðalfermetraverðið 349 þúsund krónur. Ódýrustu bústaðirnir fást við Miðfell við Þingvallavatn og Hallkelshóla. Á síðasta ári hefur fermetraverðið þar 246 til 247 þúsund krónur að meðaltali og byggja þær upplýsingar á 11 kaupsamningum.

Vesturland

Sumarbústaðir á Vesturlandi eru í dag um 10% ódýrari en bústaðir á Suðurlandi. Frá árinu 2010 hefur meðalfermetraverðið á Vesturlandi hækkað um 29,5%. Verðið lækkaði töluvert á milli áranna 2010 og 2012 en hefur farið hækkandi síðan. Frá árinu 2014 hefur meðalverðið hækkað um ríflega 26%.

Á Vesturlandi eru dýrustu bústaðirnir í sumarbústaðabyggðinni í Skorradal. Á síðustu tólf mánuðum er fermetraverðið þar 317 þúsund krónur að meðaltali og liggja 11 þinglýstir samningar til grundvallar. Ódýrustu bústaðirnir eru við Meðalfellsvatn í Kjós. Á síðustu tólf mánuðum hefur 14 kaupsamningum verið þinglýst þar og er meðafermetraverð 239 þúsund krónur.

Norðurland og Austurland

Líkt og á Vesturlandi lækkað verð á sumarbústöðum á Norður- og Austurlandi töluvert á milli áranna 2010 og 2012. Frá árinu 2010 og til dagsins í dag hefur meðalverð á fermetra hækkað um ríflega 17% en frá árinu 2014 nemur hækkunin 25%.

Á Norðurlandi er hæsta fermetraverðið við Eyjafjörð. Á einu ári hefur þremur samningum verið þinglýst þar og meðafermetraverðið er 343 þúsund krónur. Í Kjarnaskógi er verðið 324 þúsund fermetrinn og 312 þúsund í Vaglaskógi en þremur samningum hefur verið þinglýst á hvorum stað. Á síðustu tólf mánuðum hefur sömuleiðis þremur kaupsamningum verið þinglýst í Eyjólfsstaðaskógi á Austurlandi og er meðalfermetaverðið þar 239 þúsund krónur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .