Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) hækkaði um 0,3% í september en gildi hagvísisins hefur ekki verið hærra í uppsveiflu síðan 2006. Þetta kemur fram í frétt frá Analytica sem birtist nú í morgun

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum.

Fram kemur í fréttinni að hækkun hagvísisins skýrinst af auknu aflaverðmæti, mikilli fjölgun ferðamanna og hækkun væntingavísitölu Gallup. Áhættuþættir eru í ytra umhverfi sem gætu ógnað hagvexti, einkum í alþjóðastjórnmálum, óvissu í efnahagsmálum nýmarkaðsríkja og Kína og áhrifum á helstu viðskiptalönd.

Samkvæmt Analytica er  „hugmyndin að baki vísitölunni er sú að framleiðsla hefur aðdraganda. Vísitalan er reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Til að unnt sé að auka framleiðslu þarf t.d. að afla aðfanga og stofna til fjárfestinga.“