Einstaklingur á fertugsaldri sem er búsettur á Reykjanesi er staðalímynd þess sem sótt hefur um greiðsluaðlögun. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að það séu einstaklingar, fólk á Reykjanesi og fólk á fertugsaldri sem eru stærstu hóparnir sem sótt hafa um greiðsluaðlögun.

Samtals hafa 4.099 manns sótt um greiðsluaðlögun síðan úrræðið var kynnt til sögunnar árið 2010. Sé litið til hvernig samsetning þessa hóps skiptist eru 32,7% á aldrinum 30-39 ára en einungis 9,5% yfir 60 ára. Einstaklingar eru sömuleiðis stærsti hluti umsækjenda eða 38% en hjón með börn eru 29% umsækjenda. Flestar umsóknir eru þá frá Reykjavík en stærsta hlutfallið kemur frá Reykjanesi.

Þess má geta að rúmlega 27% fólks sem sótt hefur um greiðsluaðlögun getur ekki borgað neitt upp í kröfur sínar á samningstíma. Að meðaltali eru um 70-75% samningsskulda felldar niður að samningstíma loknum samkvæmt fréttinni.