Líkt og síðustu ár jukust eignir einstaklinga hérlendis samkvæmt skattframtölum en meðalskuldirnar stóðu í stað. Jafnframt jókst eigið fé, en þó ekki jafnmikið og árið 2015 að því er Hagstofan greinir frá.

Eigið fé ársins fór í liðlega 3.300 milljarða króna á árinu, en aukningin nemur um 13%, en hafa verður í huga að skattgreiðendum hefur fjölgað og meðaltal vísitölu neysluverðs hækkaði um 1,7% milli áranna 2015 og 2016. Eignamesti tíundi hluti þjóðarinnar eiga um 62% heildarupphæðar eigin fjár, eða 2.100 milljarða króna.

Heildareignir um 5.200 milljarðar

Líkt og undanfarin ár hefur fjölskyldum með neikvætt eigið fé í húsnæði fækkað, og voru þau um 20% færri, eða 5.856 á árinu, heldur en árið 2015. Að meðaltali var eiginfjárstaðan neikvæð um 5 milljónir króna sem er svipað og síðustu ár. H

eildareignir fóru úr 4.800 milljörðum króna í lok ársins 2015 og fóru þær upp í 5.200 milljarða króna í lok ársins 2016, en það samsvarar 9% aukningu á milli ára. Eignirnar samanstanda af fasteignum sem eru um 73% heildarupphæðarinnar, ökutækjum sem eru um 5%, innistæðum í bönkum sem samsvara 12% og verðbréfum sem eru um 9% eignanna.

Heildarskuldirnar námu 1.900 milljörðum

Á sama tíma jukust skuldirnar um 3%, og námu þær 1.900 milljörðum króna í árslok 2016, en árið 2016 voru 23% fjölskyldna skuldlausar sem er aukning um 2 prósentustig frá fyrra ári.

Af skuldsettum fjölskyldum skuldaði helmingur minna en rúmlega 5 milljónum króna, en 90% skulduðu minna en 32 milljónir króna. Fjölskyldur í hæstu skuldatíundinni skulduðu um 700 milljarða, sem samsvarar 39% heildarskulda.