Pylsubar í Chicago-borg er í sigurvímu eftir að hafa sigrað tveggja ára langa baráttu fyrir því að pylsur verði hluti af emoji-safninu víðþekkta.

Í hugbúnaðaruppfærslu sem var gefin út í vikunni fengu heilmörg ný emoji-tákn að sjá dagsins ljós, en meðal þeirra eru til að mynda íslenski fáninn, skrifandi hönd, broskall á hvolfi, og síðast en ekki síst fyrir pylsubarinn, pylsa í brauði með sinnepsrönd.

Laura Ustick, þriðju-kynslóðar eigandi Superdawg drive-in pylsubarsins er skýjum ofar yfir þessum mikla sigri. Þegar hún heyrði af hugbúnaðaruppfærslunni hljóp hún frá langri röð viðskiptavina til að hlaða henni niður, og er hún sannfærð um að hún hafi verið með þeim allra fyrstu til að uppfæra símann sinn með hugbúnaðinum.

Barátta Superdawg hófst fyrir alvöru þegar Wall Street Journal skrifaði um sársaukann sem fylgdi því að reka pylsubar en eiga ekki emoji til notkunar.

Núna er Twitter-síða Superdawg stútfullur af pylsu emoji-táknum, og Laura segist vera að fara örlítið yfir um í notkuninni.