Þeir sem tóku gengislán fyrir efnahagshrunið og vænta þess að lánin verði endurreiknuð með neikvæðum raunvöxtum aftur í tímann byggja það á óraunhæfum kröfum. Þetta er skoðun Helga Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns sem vísar til umtalaðs gengisdóms fyrir Hæstarétti í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka. Þetta kemur fram á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Í fréttinni kemur enn fremur fram að niiðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að sveitarfélagið skuldaði tæpar 129 milljónir, málalok sem Helgi segir að hafi verið ígildi þess að umrætt lán hafi borið neikvæða raunvexti. Aldrei hafi hins vegar reynt á þessa aðferð við að reikna út eftirstöðvar, enda hafi ágreiningurinn í þessu dómsmáli öðrum þræði snúist um hvort víkja ætti meginreglu um fullar efndir til hliðar. Því sé fordæmisgildi þessa máls lítið.

Þá segir Helgi í samtali við Morgunblaðið að þessi niðurstaða sé í ósamræmi við dóm Hæstaréttar í máli Landsbankans gegn Plastiðjunni hinn 30. maí sl., enda hafi fjárkröfu fyrirtækisins gegn bankanum verið mótmælt.Helgi bendir jafnframt á að Hæstiréttur sé bundinn af þeim málsástæðum sem teflt er fram hverju sinni fyrir dómnum.Telur Helgi einnig að kröfur um neikvæða raunvexti geti aldrei sam- rýmst réttmætum væntingum lántaka eða eðlilegu réttarumhverfi lánveitenda.