Efnahags- og viðskiptaráðuneytið segir Hæstarétt hafa fest í sessi efnisreglur og forsendur gengislánalaga sem Alþingi setti í desember síðastliðnum með dómum í gær. Þetta er þvert á það sem Samtök lánþega sögðu í morgun, en samkvæmt tilkynningu frá þeim voru forsendur gengislánalaga Alþingis brostnar vegna niðurstöðu Hæstaréttar.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu, vegna frétta um að áhrif dóma Hæstaréttar í málum gegn Frjáls fjárfestingabankanum í gær, segir:

„Nánar tiltekið er helstu niðurstöðuatriði Hæstaréttar þessi:

1. Húsnæðislánaform Frjálsa fjárfestingarbankans sem m.a. kváðu á um að skuldarar viðurkenndu að skulda íslenskar krónur „að jafnvirði“ tiltekinna erlendra mynta, fela í sér ólögmæta gengistryggingu. Ekki skipti heldur máli þótt lánin væru kölluð „Fasteignalán í erlendri mynt“. Þetta er í samræmi við ákvæði laganna frá í desember.

2. Hæstiréttur segir að mestu máli skipti þegar metið er hvort um gilt erlent lán er að ræða eða íslenskt lán með ólögmætri gengistryggingu hvort lánsfjárhæðin sé ákveðin í íslenskum krónum og greiða beri lánið til baka í sömu mynt. Þetta er í samræmi við desemberlögin.

3. Ekki var fallist á það með bankanum að undantekningarákvæði 2. gr. vaxtalaga, sem eiga við ef samið er um betri réttindi fyrir skuldara, leiði til þess að annars ógild gengistryggingarákvæði skuli gilda.

4. Á skuldina ber að reikna svokallaða seðlabankavexti en ekki svokallaða LIBOR vexti (millibankavexti) með álagi. Er skýrt tekið fram að fyrri dómar Hæstaréttar í gengislánamálum hafi fullt fordæmisgildi.

5. Ekki var fallist á að tilvísun skuldara til laga um neytendalán breytti fyrri fordæmum um ákvörðun vaxta (en þeirri málsástæðu hafði ekki verið haldið fram í eldri málum).

6. Varðandi uppgjör á þeim lánum sem um ræddi í málinu er tekið fram í dómi Hæstaréttar að verulega vanti upp á þau hafi verið í skilum miðað við uppreikning samkvæmt seðlabankavöxtum.

Þetta er orðað svona: „Samkvæmt ... forsendum fyrir útreikningum hafa sóknaraðilar (skuldarar) ekki ofgreitt af lánum sínum, heldur skortir þvert á móti upp á að full skil teljist hafa verið gerð“. Að öðru leyti var ekki fjallað um uppgjör til fortíðar litið þar sem Frjálsi fjárfestingarbankinn gerði ekki sérstaka kröfu þar um fyrir Hæstarétti.“