Hæstiréttur Íslands hafnaði fyrir helgi launakröfu Ríkharðs Daðasonar í þrotabú Kaupþings. Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkharður ætti um 21 milljón króna forgangskröfu í búið. Slitastjórn kaupþings áfrýjaði til Hæstaréttar.

Ágreiningur í málinu snéri einkum að því hvort gerður hafi verið munnlegur samningur á milli Kaupþings og Ríkharðs um að heildarlaun hans á mánuði skyldu vera 2,4 milljónir króna. Grunnlaun samkvæmt samningi voru 450 þúsund krónur á mánuði en hækkuðu síðar í 700 þúsund. Ríkharður telur að munnlegt samkomulag hafi kveðið á um að heildargreiðsla ætti að vera 2,4 milljónir á mánuði, og yrði mætt með kaupaukagreiðslum.

Kaupþing hélt því fram að bónusgreiðslur til starfsmanna hefðu nánast undantekningarlaust verið háðar skilyrði um að arðsemi eignfjár væri yfir 15% á fyrstu sex mánuðum ársins og aftur á síðari sex. Þá væru þær einnig háðar mati á frammistöðu þess sviðs sem starfsmaður starfaði á og frammistöðu viðkomandi starfsmanns.

Hæstiréttur taldi að það væri ósannað að samningur um bónusgreiðslur hafi komist á og hafnaði viðurkenningu á kröfum Ríkharðs í þrotabú Kaupþings.

Dómur Hæstaréttar .