Hæstiréttur hafnaði með öllu kröfum sakborninga í Al-Thani málinu um að málinu yrði vísað frá dómi, en fyrir þessari kröfu voru færðar nokkrar ástæður, sem Hæstiréttur hafnaði eins og áður segir.

Meðal þess sem sakborningarnir fjórir byggðu kröfuna á var að uppvíst hafi orðið þegar liðið hafi á rannsókn málsins að á fyrri hluta árs 2010 hafi lögregla tekið upp símtöl einhverra þeirra og hafi í þeim upptökum verið meðal annars samtöl, sem tveir þeirra hafi átt við verjendur sína. Starfsmenn lögreglu hafi fengið það hlutverk að hlýða á upptökur af símtölum og hljóti þeir að hafa þurft að hlusta á hvert samtal fyrir sig í heild eða að hluta, þótt þeir hafi fengið fyrirmæli um að láta af slíku ef þeir yrðu þess varir að samtal væri við verjanda, svo sem ákæruvaldið hafi haldið fram að gefin hafi verið. Á þennan hátt hafi verið skertur réttur sakbornings til trúnaðar um samtöl sín við verjanda, en lögreglu hefði verið skylt að haga hlustun á annan veg til að tryggja þennan trúnað, svo sem með því að aðrir en starfsmenn hennar hefðu gengið úr skugga um hvort samtöl væru við verjendur áður en lengra yrði haldið. Þá var frá því greint í bréfi sérstaks saksóknara til verjanda Hreiðars Más Sigurðssonar að upptökum af fjórum samtölum Hreiðars og verjandans hafi ekki verið eytt, en að á þessar upptökur hafi ekki verið hlustað.

Hæstiréttur segir í dómnum að í málinu liggi ekki fyrir nokkurt endurrit af hljóðrituðu símtali milli einhvers ákærða og verjanda síns, útdrættir úr slíkum símtölum eða skýrslur um efni þeirra. sé þannig alls kostar ljóst að slík gögn hafi á engan hátt verið nýtt til sönnunar fyrir dómi. Að þessu frágengnu sé þess að gæta að ekki fáist séð hvernig lögregla gæti almennt hagað aðgerðum við hlustun síma sakbornings á annan hátt en gert var í þessu tilviki samkvæmt fyrrnefndu bréfi sérstaks saksóknara. Var frávísun á þessum grunni því hafnað.

Sögðu rannsakendur hlutdræga

Ákærðu í málinu kröfðust einnig frávísunar af þeirri ástæðu að greinargerð rannsakenda beri þess skýr merki að lögregla hafi ekki gætt þeirrar hlutlægni við rannsókn málsins sem henni hafi borið. Í greinargerðinni sé að finna ítrekaðar og fyrirvaralausar fullyrðingar, sem óhagfelldar séu ákærðu, um flesta þætti málsins og verði af því ráðið að meðan á rannsókn stóð hafi hugur rannsakenda verið fullmótaður. Að auki hafi framlagning þessarar greinargerðar verið andstæð meginreglu um munnlegan flutning máls.

Þessar röksemdir fyrir frávísun eru sagðar haldlausar af Hæstarétti sem segir að af greinargerðinni verði ekki dregnar ályktanir um viðhorf rannsakenda til sakarefnisins. Greinargerð rannsakenda sé að sönnu yfirgripsmikil, en það séu ekki síður gögn þess sem leitast hafi verið að vinna úr í henni.

Kröfu Sigurðar hafnað

Að lokum krafðist Sigurður Einarsson þess að málinu yrði vikið frá dómi að fyrir hans leyti á þeim grunni að lögregla hafi í nánar tilgreindum atriðum staðið ranglega að verki þegar hún leitaði eftir og fékk því framgengt að alþjóðalögreglan gæfi út eftirlýsingu á hendur þessum ákærða 11. maí 2010 þegar hann var staddur í Bretlandi, þar sem hann átti heimili.

Segir í dómnum að við flutning málsins fyrir Hæstarétti hafi röksemdir, sem tengist framangreindu, ekki verið færðar fram með þeim hætti að unnt sé að sjá hvernig hugsanlegir annmarkar á framkvæmd áðurnefndrar eftirlýsingar gagnvart ákærða Sigurði gætu leitt til þess að vísa ætti máli þessu frá héraðsdómi að því er hann varðar. Varð því ekki orðið við aðalkröfu hans á þessum grunni.