Hæstiréttur hafnaði í dag að veita Allrahanda GL, sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Gray Line hér á landi, kæruleyfi vegna úrskurðar Landsréttar um að heimila ekki fjárhagslega endurskipulagningu félagsins með nauðasamningi.

Félagið nú ætla að kanna möguleika á greiðslustöðvun í því skyni að semja við kröfuhafa. Tekið er fram að niðurstaðan muni ekki hafa áhrif á systurfélagið GL Iceland ehf., sem selur ferðir undir vörumerki Gray Line.

„Þessi ákvörðun Hæstaréttar kemur verulega á óvart. Allrahanda GL taldi niðurstöðu Landsréttar byggja á rangtúlkun á tímamörkum í ákvæðum laga nr. 57/2020 um fjárhagslega endurskipulagningu (greiðsluskjól). Nauðsynlegt þótti að fá afstöðu Hæstaréttar til einkennilegrar túlkunar Landsréttar, enda varðar hún ekki aðeins Allrahanda GL heldur öll önnur fyrirtæki sem hafa fengið greiðsluskjól vegna heimsfaraldursins,“ segir í tilkynningu Allrahanda.

„Býður allan halla af ósamræmanlegum ákvæðum laga“

Viðskiptablaðið fjallaði í byrjun janúar um niðurstöðu Landsréttar sem staðfesti dóm Héraðsdóms um höfnun á nauðasamningi félagsins. Landsréttur byggði ákvörðun sína á að framlenging á samningsveðkröfum í nauðasamningi Allrahanda hafi verið umfram heimild.

Sjá einnig: Nauðasamningnum hafnað í Landsrétti

„Í greinargerð Allrahanda GL sem fylgdi kærunni til Hæstaréttar kemur fram að fyrirtækið byggði nauðasamningsfrumvarpið á 20. grein laga nr. 57/2020 (greiðsluskjólslögin) sem heimilaði frestun allra skulda í allt að þrjú ár. Landsréttur vísaði hins vegar í almenn ákvæði gjaldþrotalaga nr. 21/1991 um að veðkröfur skyldi gera upp innan 18 mánaða. Þar sem eldri lög víkja fyrir sérlögum og nýrri lögum taldi Allrahanda GL nauðsynlegt að fá afstöðu Hæstaréttar til þessarar túlkunar Landsréttar.“

Ákvörðun Hæstaréttar þýðir að Allrahanda GL býður allan halla af ósamræmanlegum ákvæðum laga nr. 57/2020 og laga nr. 21/1991 auk óskýrrar umfjöllunar í lögskýringargögnum. Hin óbreytta niðurstaða stríðir gegn yfirlýstum markmiðum og tilgangi laga nr. 57/2020,“ segir í tilkynningu Allrahanda.“

Allrahanda GL taldi að ef úrskurður Landsréttar fengi að standa, þá færi fyrirtækið á mis við þau úrræði sem það ætti rétt á „samkvæmt skýru orðalagi“ ákvæðis 20. gr. laga nr. 57/2020 [Lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar].

„Hæstiréttur taldi málið hins vegar ekki hafa nægt fordæmisgildi né varða mikilvæga almannahagsmuni. Sú ákvörðun veldur miklum vonbrigðum.“