*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 15. júní 2017 17:45

Hæstiréttur hafnar ógildingu eignarnáms

Hæstiréttur hefur staðfest að Landsneti hf. sé heimilt að framkvæma eignarnám vegna lagningar Körflulínu 4.

Ritstjórn

Hæstiréttur staðfesti í dag niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna ógildingu á ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um að heimila eignarnám vegna Kröflulínu 4.

Samningar náðust við 17 af 19 sameigendum að óskiptu landi Reykjahlíðar sem samtals eiga um 92% eignarhluta jarðarinnar. Þar sem ekki náðust samningar við alla landeigendur leitaði Landsnet, að loknu löngu samningaferli, eftir heimild atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til eignarnáms.

Á grundvelli eignarnámsheimildar úrskurðaði matsnefnd eignarnámsbóta að bætur til þeirra landeigenda sem samningar náðust ekki við næmu kr. 2.519.392. Boði Landsnets um greiðslu eignarnámsbóta í kjölfar úrskurðar matsnefndarinnar var hafnað.

Í fréttatilkynningu frá Landsneti segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets það aldrei gott að þurfa að óska eftir eignanámi og segir hann dóm Hæstaréttar staðfesta að rétt hafi verið staðið að undirbúningi ákvörðunar um að heimila eignanám og að undirbúningur framkvæmdarinnar hafi verið án annmarka.

„Það er mjög óheppilegt að í stóru verkefni sem varðar hagsmuni margra aðila sé svo seint í ferlinu verið að útkljá ágreiningsmál varðandi grundvöll þess að af framkvæmdum geti orðið„ segir Guðmundur í tilkynningunni.

Kröflulína 4 liggur frá Kröfluvirkjun að Þeistareykjavirkjun. Línan er um 33 km að lengd með 104 möstur, þar af 10 km í landi Reykjahlíðar og 35 möstur. Vinnu við vegslóð og undirstöður mastra er lokið nema í landi Reykjahlíðar. Búið er að reisa 60 af 69 möstrum utan Reykjahlíðar.