Hæstiréttur Írlands komst að þeirri niðurstöðu í dag að flugmönnum lágfargjaldaflugfélagsins Ryanair væri óheimilt að fara í verkfallsaðgerðir sem stóð til að fara í á morgun og á föstudag. Þetta kemur fram í frétt BBC .

Málflutningur lögmanna Ryanair byggði að stærstum hluta á því að stéttarfélag flugmanna í Írlandi sem er umbjóðandi um 180 flugmanna Ryanair, hafi ekki látið reyna til þrautar að ná samningum við flugfélagið áður en gripið var til verkfallsaðgerða.

Áhyggjur Ryanair af verkfallsaðgerðum flugmanna eru þó ekki úr sögunni en félagið bíður enn niðurstöðu breskra dómstóla varðandi verkfallsrétt breskra flugmanna félagsins. Verði sú ákvörðun Ryanair í óhag yrði um mun fjölmennari verkfallsaðgerðir að ræða en í tilfelli írsku flugmannanna.

Flugmenn Ryanair hafa það sem af er ári staðið í kjaraviðræðum þar sem bæði hefur verið rætt um laun en einnig vinnuaðstæður þeirra. Á sama tíma og deilan hefur staðið yfir lét Michael O‘Leary forstjóri Ryanair hafa það eftir sér í lok júlí að félagið myndi segja allt að 900 starfsmönnum upp fyrir lok ágústmánaðar vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX vélanna. Lét O‘Leary hafa það eftir sér að félagið væri með um 500 flugmenn of marga á launaskrá.