Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá miðjum mánuðinum og hafnað því að teknar yrðu vitnaskýrslur af tveimur matsmönnum í tengslum við riftunarmál þrotabús Baugs Group sem rekið er í Hæstarétti. Málið snýst um riftun á tveimur greiðslum til Skarphéðins Bergs Steinarssonar, fyrrverandi framkvæmastjóra fjárfestinga Baugs í fasteigna- og fjármálafyrirtækjum.

Baugur Group keypti hlutabréf Skarphéðins í BGE Eignarhaldsfélagi í tveimur áföngum, 3. september árið 2008 og 27. október sama ár, fyrir um 100 milljónir króna. Eina eign BGE Eignarhaldsfélags voru hlutabréf í Baugi. Matsmennirnir unnu fyrir þrotabúið í öðru máli þrotabúsins og mátu hlutabréfin í Baugi verðlaus. Skarphéðinn var ekki aðili í því máli.

Skiptastjóri þrotabús Baugs taldi að samkvæmt því mati sem matsmennirnir gerðu hafi greiðslan til Skarphéðins verið örlætisgerningur, eins og það er orðað í úrskurði héraðsdóms. Héraðsdómur taldi hins vegar ekki heimild standa til að matsmennirnir verði leiddir fyrir dóminn og hafnaði ósk skiptastjórans. Undir það tók Hæstiréttur.

Dómur Hæstaréttar