Hæstiréttur gagnrýnir í dómi sem féll í dag að lögmenn Samherja fengu ekki að grípa til varna þegar Seðlabanki Íslands krafðist ítarlegri heimildar til húsleitar og haldlagningar gagna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 27. mars síðastliðinn. Þegar Seðlabankinn krafðist víðtækari heimildar var húsleitin þegar hafin og stjórnendum og lögmönnum Samherja fullkunnugt um fyrirhugaða aðgerð stjórnvalda gegn þeim.

Aðfinnsluvert

„Þótt fyrir lægi að það hefði óhjákvæmilega valdið drætti á að nýr úrskurður yrði upp kveðinn, ef þeir hefðu verið boðaðir til þinghalds og veittur kostur á að tjá sig um fram komna kröfu, réttlætti það ekki að víkja frá meginreglunni um andmælarétt þess sem krafa beinist að," segir í dómi Hæstaréttar. „Er aðfinnsluvert að svo hafi verið gert, en haggar sem fyrr segir ekki gildi úrskurðarins.“

Vísað frá af formástæðum

Í dómi Hæstaréttar er tekið fram að ekki séu lagalegar forsendur til að dæma húsleitina ólögmæta í heild sinni né fyrirskipa Seðlabanka Íslands að skila öllum haldlögðum gögnum. Ekki er tekin afstaða til efnisatriða málsins sem forsendur fyrir húsleitinni byggðu á. Á vefsíðu Samherja hafa verið birtir útreikningar sem eiga að sýna að niðurstaða Seðlabanka Íslands, sem áttu að sýna fram á meint saknæmt athæfi stjórnenda Samherja, var röng. Sett var út á þessa aðferðafræði Seðlabankans í úrskurði héraðsdóms.

Sætir ekki úrlausn dómstóla

Hins vegar segir í dómi Hæstaréttar: „Sú krafa varnaraðila [Samherja] að fyrrgreindar rannsóknaraðgerðir sóknaraðila [Seðlabankans] verði dæmdar ólögmætar og að honum skuli af þeirri ástæðu vera gert að hætta rannsókn sinni án tafar er aftur á móti á því byggð að sú háttsemi varnaraðila [Samherja], sem til rannsóknar er, sé hvorki refsiverð né ólögmæt. Sökum þess að rannsókn ætlaðra brota á lögum nr. 87/1992 [um gjaldeyrismál] er í höndum sóknaraðila sem stjórnvalds getur þetta álitaefni ekki sætt úrlausn dómstóla eðli máls samkvæmt fyrr en tekin hefur verið ákvörðun um að beita varnaraðila stjórnvaldssektum eða eftir að höfðað hefur verið sakamál á hendum þeim vegna þeirra brota.“

Fjallað er nánar um húsleit hjá Samherja í Viðskiptablaðinu í dag.