Dómur, sem féll í Hæstarétti fyrir áramót, felur í raun í sér að skuld getur nú orðið skattstofni fyrir ákvörðun tekjuskatts, að mati hæstaréttarlögmanns.

Málið snýst um ólöglega lánveitingu frá einkahlutafélaginu Svölu SU til eigandans, Stefáns Ingvars Guðjónssonar. Ríkisskattstjóri hafði ákvarðað tekjuskatt á Stefán, enda kváðu lög um einkahlutafélög svo á að líta ætti á slíkar lánveitingar sem launagreiðslur og þær ætti að skattleggja sem slíkar. Í þessu máli hafði Stefán hins vegar greitt lánið til baka og taldi sig því ekki eiga að greiða skattinn.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði laganna brytu gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þegar búið væri að greiða lánið til baka væri verið að innheimta skatt af tekjum sem ekki væru til staðar og til að greiða þær þyrfti viðkomandi að ganga á aðrar eignir sínar. Slíkt fyrirkomulag væri stjórnarskrárbrot.

Hæstiréttur komst að þveröfugri niðurstöðu. Í dómi Hæstaréttar segir að markmið laganna hafi verið að stemma stigu við ólögmætri úthlutun fjár í formi lánveitinga til eigenda og að í dómaframkvæmd hafi löggjafanum almennt verið játað víðtækt vald til að að ákveða hvaða atriði skyldu ráða skattskyldu.

Erfið siðferðileg staða

Bjarni G. Björgvinsson.
Bjarni G. Björgvinsson.

Bjarni G. Björgvinsson, hæstaréttarlögmaður hjá lögmannstofunni Pacta, var lögmaður Stefáns bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. „Það er margt í dómi Hæstaréttar og í atvikum málsins sem vekur athygli. Lykilatriði í honum er hvort það eigi að skipta máli hvort lánið hafi verið endurgreitt eða ekki. Í Hæstaréttardómnum segir að eðli máls samkvæmt feli lánveiting ekki í sér varanlega yfirfærslu verðmæta en að ljóst sé að af hálfu löggjafans sé ekki gert ráð fyrir að endurgreiðsla lána ætti að hafa áhrif á skattskyldu. Það sem Hæstiréttur er þarna að segja er að í þessu tilviki að minnsta kosti geti skuld orðið skattstofn fyrir ákvörðun tekjuskatts og það greidd skuld. Hingað til hefur réttarkerfið gert skýr skil á milli eigna og skulda, tekna og útgjalda, en þarna er tveimur af þessum fjórum atriðum ruglað saman. Að mínu mati er eðlilegt að líta á lán, sem ekki hefur verið greitt, sem tekjur og þær má skattleggja. Málið horfir einfaldlega öðruvísi við þegar búið er að greiða lánið. Þá eru engar tekjur.“

Bjarni segir að í kjölfar dómsins geti endurskoðendur og aðrir sem veiti fyrirtækjum og fjárfestum lent í erfiðri siðferðlilegri stöðu. „Segjum sem svo að umbjóðandinn hafi fengið slíkt lán frá fyrirtækinu. Það er ekkert um það deilt að lánið er ólöglegt og því gæti ráðgjafinn ráðlagt honum að greiða það til baka. En þá mun umbjóðandinn engu að síður þurfa að greiða skattinn. Ráðgjafinn gæti því ráðlagt honum að halda peningunum og nota þá til að greiða skattinn. Þetta er ekki skemmtileg staða.“

Órökrétt hugtakanotkun

Bjarni segir að skattalög séu afleit leið til að stemma stigu við ólöglegri úthlutun fjár úr einkahlutafélögum. „Lögin um einkahlutafélög eru með öll nauðsynleg úrræði. Þar er bannið við lánveitingunni að finna og lögin kveða á um endurgreiðslu á láninu með dráttarvöxtum og þá er einnig hægt að refsa mönnum smeð sektum. Annars er mjög áhugavert að Hæstiréttur segir í dómi sínum að að hugtakanotkun í tekjuskattslögunum sé um sumt hvorki hefðbundin eða með öllu rökrétt. Þarna hefði maður viljað fá aðeins meira kjöt á beinið - fá að vita hvað það er sem dómnum finnst órökrétt.“