Verjendur sakborninga í Al-Thani málinu svokallaða voru snupraðir af Hæstarétti í dag, þegar hann vísaði frá kröfu sakborninganna um að aðalmeðferð í málinu yrði frestað.

Héraðsdómur hafði hafnað kröfunni og var sú ákvörðun kærð til Hæstaréttar. Í dómi sínum segir Hæstiréttur að samkvæmt lögum um meðferð sakamála sé aðeins hægt að kæra til Hæstaréttar ákvörðun um að fresta aðalmeðferð. Höfnun slíkrar kröfu sé ekki hægt að bera undir réttinn. Var málinu því vísað frá.

Í lok dómsins segir svo: „Það athugast að kæra þessi er að ófyrirsynju.“ Þarna er Hæstiréttur í raun að setja ofan í við verjendur sakborninganna og segir að þeir hafi átt að gera sér grein fyrir því að úrskurð Héraðsdóms hafi ekki verið hægt að kæra.

Sakborningarnir höfðu óskað eftir því að aðalmeðferð yrði frestað svo þeir fengju tíma til að bregðast við nýjum gögnum frá ákærandan, eftir atvikum með framlagningu nýrra gagna. Héraðsdómur synjaði þessari kröfu og hefst aðalmeðferð í málinu því 11. apríl næstkomandi. Eftir sex til átta vikur verður svo nýtt þinghald í málinu þar sem verjendum gefst kostur á að bregðast við þessum nýju gögnum.