Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í dag að stærstur hluti tæplega 7 milljarða króna krafna Þorsteins Hjaltested á hendur Kópavogsbæ skuli verða tekinn til efnislegar meðferðar. Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í málinu um miðjan júnímánuði og vísaði þá frá málinu að langstærstum hluta. Þá var vísað frá kröfum upp á um 6 milljarða af rúmlega 6,9 milljarða kröfum Þorsteins.

Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem felldi úr gildi þá ákvörðun héraðsdóms að vísa frá stórum hluta krafna. Kröfu Þorsteins um 350 milljóna króna endurgjald vegna tapaðra leigutekna af lóðum var hins vegar vísað frá. Þá var varakröfu Þorsteins upp á um 6,6 milljarða einnig vísað frá í málinu. Dómur Hæstaréttar er birtur á vefsíðu dómstólsins í dag. Í dómsorði kemur fram að eftir stendur krafa upp á um 5,6 milljarða króna vegna ætlaðra vanefnda Kópavogsbæjar.

Ítarlega var fjallað um deilur Þorsteins og Kópavogsbæjar í Viðskiptablaðinu þann 9. ágúst sl. Þorsteinn krefst þess að fá greiddar efndabætur vegna vanefnda bæjarins. Málið má rekja til svokallaðrar eignarnámssáttar sem gerð var árið 2007 milli Þorsteins, sem eiganda Vatnsendalands, og Kópavogsbæjar. Þorsteinn hefur þegar fengið greiddar rúmlega 2,2 milljarða króna vegna eignarnámsins. Hann stefndi Kópavogsbæ í fyrra þar sem hann telur að bærinn hafi ekki staðið við aðra þætti samningsins frá árinu 2007.

Samkvæmt eignarnámssáttinni átti Kópavogsbær að skipuleggja að lágmarki 300 lóðir undir sérbýli á tilgreindum spildum á Vatnsendalandi og afhenda Þorsteini. Uppbygging á svæðinu hefur ekki farið fram og liggur fyrir málinu matsgerð sem Þorsteinn byggir kröfu sína á. Hæstiréttur felldi úr gildi ákvörðun héraðsdóms um að vísa þessum hluta málsins frá og mun hann því fá efnislega meðferð fyrir héraðsdómi.

Niðurstaða Hæstaréttar .