Í júní 2007 staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 11/2007 þess efnis að með kynningu og sölu á flugfargjöldum, svokölluðum Netsmellum að upphæð 16.900 kr., sem stóðu viðskiptavinum Icelandair, til boða á árinu 2004 á flugleiðinni milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar annars vegar og á flugleiðinni milli Keflavíkur og London hins vegar, hafi félagið misnotað markaðsráðandi stöðu sína og brotið gegn samkeppnislögum.

Var Icelandair gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 130 milljónir króna í ríkissjóð. Icelandair skaut úrskurði áfrýjunarnefndar til dómstóla. Tafðist meðferð málsins vegna biðar eftir matsgerð sem Icelandair hafði óskað eftir. Í febrúar 2010 staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur þá niðurstöðu áfrýjunarnefndar að Icelandair hafi verið í markaðsráðandi stöðu og misnotað hana og þar með brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga.

Héraðsdómur taldi hins vegar brotin ekki eins alvarleg og lagt var til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála og felldi úr gildi sektarákvörðun áfrýjunarnefndar.

Samkeppniseftirlitið taldi það ekki rétta niðurstöðu að fella niður sekt Icelandair og áfrýjaði þessum dómi héraðsdóms til Hæstaréttar og í febrúar 2011 ómerkti Hæstiréttur dóm héraðsdóms þar sem of langur tími leið á milli aðalmeðferðar í málinu og dómsuppsögu. Kom málið því aftur til efnislegrar meðferðar hjá héraðsdómi sem kvað upp nýjan dóm 25. febrúar 2011.

Komst héraðsdómur að sömu niðurstöðu og í fyrri dómi og Samkeppniseftirlitið skaut málinu á ný til Hæstaréttar og krafðist þess m.a. að sekt yrði lögð á Icelandair.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitingu segir að með dómi Hæstaréttar í dag er staðfest sú niðurstaða að Icelandair hafi misnotað markaðsráðandi stöðu á flugleiðinni milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar. Í ljósi þessa brots og með vísan til þess að Icelandair hefði áður misnotað markaðsráðandi stöðu sína í flugi taldi Hæstiréttur rétt að fyrirtækið greiddi 80 mkr. í stjórnvaldssekt.