Hæstiréttur Íslands hefur staðfest að þeim Gesti Jónssyni og Ragnari Hall ber að greiða eina milljón króna í réttarfarssekt. Gestur Jónsson var verjandi Sigurðar Einarssonar í al-Thani málinu og Ragnar Hall var verjandi Ólafs Ólafssonar.

Þegar aðalmeðferð málsins átti að hefjast í apríl í fyrra sendu lögmennirnir dómara bréf og báðust lausnar vegna þess að þeir töldu að skjólstæðingar þeirra fengu ekki réttláta málsmeðferð. Þeirri beiðni hafnaði dómari. Lögmennirnir mættu engu að síður ekki við aðalmeðferðina og því varð dómari að fresta meðferð málsins og skipa nýja verjendur.

Við dómsuppsögu í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í haust dæmdi dómari þá Gest og Ragnar til að greiða eina milljón króna í réttarfarssekt. Þeir áfrýjuðu en Hæstiréttur komst í dag að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur Reykjavíkur.