Hæstirétt­ur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur í máli Róberts Wessman gegn Bjarna Ólafs­syni rit­stjóra Viðskipta­blaðsins.

Héraðsdómur sýknaði Bjarna af kröfu Ró­berts um ómerk­ingu um­mæla í um­fjöll­un blaðsins í fyrra og af kröfu Róberts að Bjarni yrði dæmd­ur til refs­ing­ar og til greiðslu miskabóta.

Um­mæli sner­ust um að Ró­bert hefði verið sakaður um að hafa dregið sér fé frá Acta­vis Group hf. Bjarni reisti vörn sína á því að um­mæl­in væru rétt enda til­vitn­un í stefnu og kæru Björgólfs Thor Björgólfssonar á hend­ur Ró­berti.

Í dómi hæstaréttar segir eftirfarandi:

Eins og greinir í héraðsdómi stundar áfrýjandi umfangsmikil viðskipti hérlendis sem erlendis og hefur þátttaka hans í þeim oft hlotið mikla umfjöllun fjölmiðla. Umfjöllun um slík viðskiptamálefni á erindi við almenning og er hluti mikilvægrar þjóðfélagsumræðu. Fallist er á með hinum áfrýjaða dómi að frétt sú í Viðskiptablaðinu, sem um ræðir í málinu, beri glögglega með sér að Björgólfur Thor Björgólfsson telji í stefnu og kæru á hendur áfrýjanda þá tilfærslu fjármuna, sem þar er frá greint, hafa verið ólögmæta og saknæma og að augljóslega sé þar átt við fjárdrátt.

Samkvæmt þessu fólst í hinum umstefndu ummælum í fyrirsögn blaðsins staðhæfing um staðreynd sem var efnislega rétt. Á blaðamanni þeim sem ritaði fréttina hvíldi ekki skylda til að ganga úr skugga um réttmæti þeirrar staðhæfingar sem í ummælunum fólst. Þegar af þessum ástæðum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Ró­bert var dæmd­ur til þess að greiða Bjarna eina millj­ón króna í máls­kostnað fyrir hæstarétti. Áður hafði hann verið dæmdur til að greiða 1,5 milljónir í héraði. Samtals þarf hann því að greiða 2,5 milljónir til Bjarna vegna málskostnaðar.