Hæstiréttur Spánar heftur staðfest 21 mánaða fangelsis dóm yfir argentínska knattspyrnumanninum Lionel Messi vegna skattsvika. Auk fangelsisdómsins þarf hinn fimmfaldi besti knattspyrnumaður heims að greiða sekt upp á 1,3 milljónir evra.

Dómurinn yfir föður hans, Jorge Messi var mildaður úr 21 mánuði niður í 15 mánaða fangelsisvist. Hann þarf einnig að greiða sekt upp á 1,3 milljónir evra.

Þau skattsvik sem feðgarnir eru sakfelldir fyrir snúa að ógreiddum sköttum Messi vegna tekna af ímyndarrétti hans á árunum 2007 til 2009. Í staðin fyrir að skattar væru greiddir til spænskra yfirvalda voru skattaskjól í Úrúgvæ og Belís notuð til að fela tekjurnar.

Það verður þó að teljast ólíklegt að þeir feðgar muni þurfa að sitja af sér dóminn í fangelsi þar sem spænsk lög heimila að dómar undir 2 árum geti verið afplánaðir á skilorði.