Félagið Molden Enterprises Ltd. hefur verið dæmt í Hæstarétti til að greiða Sjóklæðagerðinni, eiganda 66°Norður 172 milljónir króna. Því til viðbótar þarf félagið að greiða 1 milljón í málkostnað. Málið féll á sömu leið í Landsrétti og Héraðsdómi Reykjavíkur nema upphafstími dráttarvaxta var breytt. Gagnáfrýjandi málsins, Sjóklæðagerðin, krefst þess að dráttarvextir verði dæmdir af 106 milljónum króna frá 1. janúar 2015 til 19. október 2017 en af 172 milljónum króna frá þeim degi til greiðsludags fremur en af 172 milljónum króna frá 19. október 2017 til greiðsludags.

Málið snýst um kostnað við greiðslu kaupréttar fyrrverandi forstjóra Sjóklæðagerðarinnar, Halldórs Gunnars Eyjólfssonar.

Félagið Molden Enterprises er skráð á Möltu, hét áður hét Egus Inc. og var í eigu Sigurjóns Sighvatssonar kvikmyndaframleiðenda, líkt og fjallað var um í DV þegar dómur féll fyrir Héraðsdómi. Ekki liggur fyrir hvort Sigurjón hafi enn yfirráð yfir félaginu en það var enn í hans eigu árið 2016 samkvæmt Paradísarskjölunum.

Hjónin Helgi Rúnar Óskarsson og Bjarney Harðardóttir eiga Sjóklæðagerðarinnar nú að fullu. Helgi er jafnframt forstjóri fyrirtækisins. Félagið SFII keypti 51% hlut Molden Enterprises í Sjóklæðagerðarinnar árið 2011. Í kaupsamningnum sagði að Molden myndi ábyrgjast að kaupréttur Halldórs Gunnars væri fallinn úr gildi. Molden var samkvæmt samningnum skuldbundið til að greiða kostnað sem til félli af kauprétti umfram ráðningarsamning Halldórs.

Árið 2012 stefndi Halldór Sjóklæðagerðinni og var félagið dæmt til að greiða 110 milljónir króna vegna kaupréttarins. Sjóklæðagerðin taldi að hið maltverska Molden bæri að greiða kostnað við kaupréttarsamninginn samkvæmt kaupsamningnum frá árinu 2011. Á það hafa Héraðsdómur, Landsréttur og Hæstiréttur fallist á.