Með dómi sínum í dag féllst Hæstiréttur Íslands á þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins (ákvörðun nr. 36/2011) sem staðfest var í áfrýjunarnefnd samkeppnismála (nr. 13/2011) að sekta bæri móðurfélag Síldar og fisks ehf. og Matfugls ehf. fyrir ólögmætt lóðrétt samráð félaganna við Bónus um smásöluverð og afslátt af því í verslunum Bónuss. Hafi markmið samráðsins verið að draga virkri samkeppni og hafi sú orðið raunin. Telur Hæstiréttur ekki tilefni til að hrófla við fjárhæð sektanna.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu segir að forsögu dómsins megi rekja til rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á svokölluðum forverðmerkingum á kjötvörum, en um árabil tíðkaðist að kjötvinnslufyrirtæki verðmerktu vörur sínar fyrir verslanir. Hagar og sex kjötvinnslufyrirtæki hafi gert sátt við Samkeppniseftirlitið í kjölfarið.

„Síld og fiskur og Matfugl sættu hins vegar ekki sinn hluta málsins. Á árinu 2011 tók Samkeppniseftirlitið síðan ákvörðun um brot fyrirtækjanna og sektaði móðurfélag þeirra, Langasjó ehf., um 80 m.kr. Áfrýjunarnefnd staðfesti ákvörðunina, en Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar með skírskotun til þess að málsmeðferð gagnvart móðurfélaginu Langasjó hefði verið ábótavant og að Samkeppniseftirlitinu hefði verið óheimilt að leggja stjórnvaldssekt á Langasjó vegna brota dótturfélaganna.

Hæstiréttur hefur nú snúið dómi héraðsdóms, eins og að framan greinir. Telur Hæstiréttur að ekki hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar og að heimilt hafi verið að leggja stjórnvaldssekt á móðurfélagið. Þá eru Langisjór og dótturfélög þess dæmd til að greiða Samkeppniseftirlitinu 4 milljónir króna í málskostnað,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.