Þeir Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, og Guðmundur Hjaltason, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, voru í Hæstarétti í dag sýknaðir í Vafningsmálinu svokallaða. Þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik í málinu og hlutu níu mánaða dóm vegna þessa í Héraðsdómi Reykjavíkur á milli jóla og nýárs árið 2012.

Fram kemur í umfjöllun fréttavefjar Morgunblaðsins, mbl.is , um málið að vararíkissaksóknari hafi fyrir Hæstarétti að refsingin yrði þyngd. Hæstiréttur sýknaði þá hins vegar báða af öllum kröfum í málinu.

Þeim Lárusi og Guðmundi var gefið að sök að hafa samþykkt 102 milljóna evra peningamarkaðslán til Milestone, félagi í eigu bræðranna Karls og Steingríms Wernersbræðra, 8. febrúar 2008.

Samkvæmt ákæru embættis sérstaks saksóknara í máli var einkahlutafélagið Vafningur notað til að hylja að lánið færi til Milestone. Félagið var stofnað 7. febrúar 2008, degi áður en lánið var veitt. Vafningur fékk sambærilegt lán frá Glitni 12. febrúar, en sú fjárhæð var nýtt til að greiða upp Milestonelánið.