Hæstiréttur hafnaði beiðni Umhverfisstofnunar (UST) um leyfi til að kæra úrskurð Landsréttar í máli stofnunarinnar gegn þrotabúi Wow air frá því í desember síðastliðnum.

Evrópskum flugfélögum er ár hvert úthlutað slíkum heimildum, að hluta til endurgjaldslaust en að hluta á uppboði. Tveimur mánuðum fyrir þrot Wow fékk félagið 152 þúsund slíkar heimildir frá UST en þær voru að stærstum hluta seldar frá félaginu áður en það fór í þrot.

Sjá einnig: Staðfesti úrskurð í máli Wow

Alls stóðu 516 slíkar heimildir eftir sem skiptastjórar seldu skömmu eftir að félagið var tekið til skipta. UST lýsti 846 milljón króna kröfu í búið vegna sölu á losunarheimildum en stærstum hluta þess var komið fyrir meðal almennra krafna. Þá hefur UST lagt 3,8 milljarða króna sekt á þrotabúið sem einnig endar sem almenn krafa. Deilt var hins vegar um það hvort UST gæti fengið heimildirnar 516 afhentar eður ei.

Að mati héraðsdóms hafði skiptastjórum verið heimilt að selja umræddar heimildir frá sér og að UST væri ekki rétthafi að þeim í skilningi laga um gjaldþrotaskipti. Sérstaklega sé tekið fram í lögum að viðskipti með losunarheimildir séu frjáls. Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms.

Vildi UST meina að úrskurður Landsréttar væri bersýnilega rangur að efni til, en að virtum gögnum málsins taldi Hæstiréttur kæruefnið ekki teljast varða almannahagsmuni eða hafa slíkt fordæmisgildi sem lög um meðferð einkamála kveði á um og ekki efni til að beita þeirri heimild Hæstaréttar til að taka mál til meðferðar ef ástæða sé til að ætla að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að formi eða efni. Beiðninni var því hafnað.