Hæstiréttur vísaði í gær kæru Samherja hf. og Samherja Holding ehf., á frávísunarúrskurði Landsréttar í haldlagningarmáli, frá Hæstarétti. Taldi rétturinn að lög um meðferð sakamála hefðu ekki að geyma heimild til kæru á málinu.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í byrjun desember var fallist á kröfu Héraðssaksóknara um að KPMG ehf., KPMG Legal ehf. og Ágústi Karli Guðmundssyni væri skylt að veita embættinu upplýsingar og afhenda gögn varðandi þjónustu sem veitt var Samherjasamstæðunni árin 2013 og 2014. Enn fremur var fallist á að þeim starfsmönnum sem höfðu komið að málum Samherja yrði gert skylt að afhenda embættinu gögn.

Það þarf ekki að koma á óvart að ástæða beiðnarinnar er rannsókn héraðssaksóknara á ætluðum mútugreiðslum starfsmanna og fyrirsvarsmanna félagsins í Namibíu og Angóla, þótt hinn kærði úrskurður Landsréttar tali um ætluð mútubrot í Nígeríu.

Við meðferð málsins í héraði var farið fram á að krafan yrði tekin fyrir án þess að fulltrúar KPMG eða Samherja yrðu boðuð til þinghaldsins. Þar sem Samherji átti ekki aðild að málinu í héraði var kærunni til Landsréttar vísað frá. Hæstiréttur vísaði málinu síðan frá þar sem að samkvæmt eldri dómi væri aðeins heimilt að kæra frávísun frá Landsrétti til Hæstaréttar ef um endanlega frávísun væri að ræða. Kæruheimildin tæki ekki til frávísanna kærðra rannsóknarúrskurða eða úrskurða um réttarfarsatriði.

Í úrskurði Landsréttar var fundið að því að við fyrirtöku málsins í héraði var bókað í þingbók að rannsóknargögn hefðu legið fyrir við fyrirtöku málsins en þau hafi ekki fylgt kæru til Landsréttar. Þegar óskað var eftir þeim var upplýst að engin gögn hefðu legið fyrir. Af þeim sökum hefði héraðsdómara borið að krefja héraðssaksóknara um gögn áður en úrskurður var kveðinn upp. Í tilkynningu á vef Samherja kemur fram að félagið hafi kvartað til nefndar um dómarastörf vegna vinnubragða héraðsdómarans og nefndar um eftirlit með lögreglu vegna framgöngu saksóknara málsins.