Hæstiréttur Íslands hefur með dómi þann 18. mars 2011, vísað frá tveimur kærum Rawlinson & Hunter Trustees S.A. (,,Rawlinson & Hunter”) í málum sem varða kröfur gegn Kaupþingi banka hf. Rawlinson & Hunter stýra sjóðunum Tchenguiz Discretionary Trust og Tchenguiz Family Trust en sjóðirnir tengjast bræðrunum Robert og Vincent Tchenguiz.

Þetta kemur í fréttatilkynningu frá slitastjórn Kaupþings, þar sem málið er reifað og greint frá niðurstöðum Hæstaréttar.

Í fréttatilkynningunni segir:

„Kröfur Rawlinson & Hunter gegn Kaupþingi eru til meðferðar í tveimur dómsmálum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Rawlinson & Hunter kærði úrskurði héraðsdóms frá 10. febrúar síðastliðnum þar sem kröfu Rawlinson & Hunter um frestun málanna gegn Kaupþingi var hafnað. Krafan um frestun byggði á því að mál um sömu kröfur væri til meðferðar fyrir dómi í Englandi. Málaferlin í Englandi hófust hins vegar í júlí 2010 en þá höfðu Rawlinson & Hunter þegar lýst kröfum gegn Kaupþingi í desember 2009. Kröfunum var hafnað af slitastjórn í mars 2010.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að „stoð fyrir kæruheimild [yrði] með engu móti fundin í e. lið 1. mgr. 143. laga nr. 91/1991 [um meðferð einkamála]“ sem Rawlinson & Hunter byggði kæru sína á. Þá dæmdi Hæstiréttur Rawlinson & Hunter einnig til greiðslu kærumálskostnaðar, með orðunum að „við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að kæra þessi er gersamlega að ófyrirsynju“.

Áhrif dóms Hæstaréttar eru þau að dómsmál um kröfur Rawlinson & Hunter á hendur Kaupþingi heldur áfram í efnismeðferð fyrir héraðsdómi, án tillits til málaferla í Englandi um sömu kröfur.“

Dómana má finna hér að neðan.

http://haestirettur.is/domar?nr=7285
http://haestirettur.is/domar?nr=7284