Rúmlega 20% hækkun áfengisgjalda um áramótin gerir það að verkum að áfengisgjald á Íslandi verður 12.300 krónur á hvern lítra hreins vínanda þegar um sterkt eða styrkt áfengi er að ræða. Skattlagningin hækkar um rúmar 2.000 krónur við áramótin. Hvergi í Evrópu eru jafn há áfengisgjöld á sterkt eða styrkt áfengi.

Í grein á vefsíðu Félags atvinnurekenda segir að Íslendingar hafi lengi haft Evrópumetið þegar kemur að skattlagningu sterks áfengis, en að sá titill hafi tapast í hendur Norðmanna við bankahrunið vegna gengisfalls íslensku krónunnar. Nú nái Ísland hins vegar fyrsta sætinu aftur.

Í Noregi er skattlagningin um 12.200 krónur á hvern lítra hreins vínanda og verða Norðmenn í öðru sæti í þessum samanburði eftir áramót. Í Þýskalandi er áfengisgjaldið hins vegar aðeins um 1.800 krónur og í Danmörku er það 2.800 krónur, samkvæmt tölum hagsmunasamtakanna Spirits Europe sem FA vísar í.

Í greininni er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, að þróun áfengisgjalda hjér á landi sé umhugsunarverð. Há áfengisgjöld stuðli að því að ódýrari tegundir áfengis verði hlutfallslega dýrari en í nágrannalöndum en dýru vínin hlutfallslega frekar ódýr. Tilfærsla skattheimtu um áramótin úr virðisaukaskatti yfir í áfengisgjöld ýki enn þessi áhrif og hafi í för með sér að ódýrari áfengistegundir hækka í verði en þær dýrari lækka.