Lán geðfatlaðra einstaklinga hjá smálánafyrirtækjunum 1909, Hraðpeninga, Kredia og Smálána verða felld niður að fullu og lokað verður á lánveitingar til einstaklinga á aldrinum 18 til 20 ára þegar í stað. Það merkir að einstaklingar yngri en 20 ára geta ekki tekið lán hjá smálánafyrirtækjum. Ákvörðun þessa efnis var tekin í gær á fundi Útlána, samtaka fjármálafyrirtækja án umsýslu fjármuna annarra.

„Við höfum fengið ábendingar um að einhverjir af lánþegum aðildarfyrirtækjanna kunni að vera einstaklingar sem eiga við andlega erfiðleika að stríða,“ sagði Haukur Örn Birgisson, lögmaður Útlána, í tilkynningu. „Aðstandendur Útlána vilja leggja sitt af mörkum til þess að greiða úr vandamálum þessa hóps. Því stendur þeim eða aðstandendum þeirra til boða að setja sig í samband við sinn lánveitanda og sækja um fulla niðurfellingu höfuðstóls, áfallins kostnaðar og vaxta.“

Hann bendir jafnframt á að yngstu lántakendur félaga sem mynda samtökin líklegasta til að lenda í vandræðum síðar meir.