Líklega verður hætt að innheimta veggjöld í Hvalfjarðargöngin í júlí á næsta ári að því er fram kom í máli Gylfa Þórðarsonar, framkvæmdastjóra Spalar á aðalfundi félagsins á dögunum.

Tekjur af umferðinni eru umfram áætlanir svo félagið greiðir upp skuldir sínar hraðar en gert hafði verið ráð fyrir, en í samningi við ríkið kemur fram að ríkið fái göngin afhent í kjölfar þess að félagið ljúki við að greiða langtímalánin sín.

Samkvæmt Morgunblaðinu segir lögfestur samningur félagsins að félagið ljúki við að greiða langtímalánin sín í september á næsta ári en tilkoma erlendra ferðamanna leyfir að skuldbindingunum verði létt af fyrr en ella.

Ferðamenn staðgreiða frekar

Jafnframt staðgreiði ferðamennirnir alla jafna í mun meira mæli en aðrir, en hlutfall hennar hefur hækkað verulega eftir að umferðin fór að aukast svo um munaði í júlí 2015.

Var hlutfall tekna sem kom til af staðgreiðslu orðið 35,5% á árinu 2016, meðan árið 2011 var það hlutfall 29%. Staðgreiðslan kostar enn í dag eins og í upphafi 1.000 krónur, en ef veggjaldið hefði fylgt verðlagi væri hún 2.300 krónur.

Ódýrast er hægt að fá staka ferð með því að greiða 100 ferðir fyrirfram en þá fer verðið niður í 283 krónur.

Þurfa að endurgreiða afsláttarkort

Í ræðu sinni benti Gylfi á að Spölur þyrfti ekki einungis að greiða upp langtímaskuldir sínar, heldur einnig að standa við allar aðrar skuldbindingar sínar.

Má þar nefna endurgreiðsla til viðskiptavina á ónotuðum afsláttarkortum og inneignir til áskrifenda auk skilagjalda vegna veglykla.

Síðan þyrfti að greiða hluthöfum út hlutafé sitt, uppfært til þess tíma verðlags, en hann áætlar að þessi útgjöld geti numið samtals um 700 milljónum króna.

„Eins og staðan er núna blasir ekki við annað en að allt þetta verði greitt og frágengið þegar líður á sumarið 2018,“ segir Gylfi.