Samkeppnin á farsímamarkaði er gríðarlega hörð og er Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, gagnrýnin á Samkeppniseftirlitið. „Eftir hrun er áherslan eðlilega á mál tengd bankahruninu og þá sitja önnur mál á hakanum. Við þessar aðstæður er mjög hætt við því að fyrirtæki sæti lagi og brjóti á keppinautunum í þeirri trú að þau komist upp með það.“

Hún er einnig harðorð í garð keppinautanna, einkum Símans, en hún segir að brot Símans gegn Nova hafi verið mörg, umfangsmikil og alvarleg. Alvarlegasta dæmið um slíkt brot segir hún hafa verið þegar Síminn safnaði upplýsingum um viðskiptavini keppinautanna og bjó til gagnagrunn yfir þá viðskiptavini sem notuðu sína síma mest. Þessi grunnur var svo notaður til að hringja í þessa sömu viðskiptavini og fá þá til að skipta um farsímafyrirtæki.

„Það er alvarlegt fyrir fyrirtæki eins og okkur hve langan tíma það tekur að fá niðurstöðu í mál hjá Samkeppniseftirlitinu. Loksins þegar, eða ef það kemur ákvörðun frá þeim þá er markaðurinn kominn ljósárum frá þeirri stöðu sem var þegar málið kom upp og óskað var rannsóknar. Þannig er t.d. staðan með gagnagrunnsmálið. Þar voru viðskiptavinir Nova og keppinautanna flokkaðir eftir ólöglegum leiðum. Þessi gagnagrunnur braut ekki aðeins samkeppnislög heldur einnig fjarskiptalög og lög um persónuvernd.“

Ítarlegt viðtal er við Liv í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.