Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi Pressunnar segir að ákveðið hafi verið að kaup félagsins á útgáfufélaginu Birtíngi muni ganga til baka. Birtíngur gefur meðal annars út tímaritin Nýtt Líf, Hús og Híbýli, Gestgjafann og Vikuna.

Segist hann vonast til þess að áætluð hlutafjáraukning að fjárhæð 300 milljónir króna dugi til að rétta rekstur félagsins við, ásamt með umfangsmiklum hagræðingaraðgerðum, þar á meðal fækkun útgáfudaga DV niður í einn á viku og fækkun starfsfólks.

Dalurinn er stærsti hluthafinn og hefur lánað félaginu aukið fé

„Það er ekki rétt að félagið þurfi 700 milljónir króna til að geta rétt úr kútnum líkt og haldið er fram,“ segir Björn Ingi. „Það er langt í frá. Þetta eru heildarskuldir samstæðunnar með Birtingi. Fjárfestingarfélagið Dalurinn er nú þegar stærsti hluthafinn í Pressunni, og hefur lánað félaginu umtalsverða fjármuni.“

Björn Ingi verður áfram útgefandi og stjórnarformaður Pressunnar og Arnar Ægisson framkvæmdastjóri. Björn Ingi segir að Dalurinn hafi verið orðinn stærsti eigandinn fyrir áætlaða hlutafjáraukningu upp á 300 milljónir króna, en nú þegar séu komnar með lánveitingum og auknu hlutafé um 100 milljónir af þeirri fjárhæð.

„Við Arnar Ægisson, forstjóri Pressunar, erum sjálfir búnir að setja 50 milljónir í þetta, og síðan höfum við fengið nokkuð fjármagn að láni hjá Dalnum, og svo erum við að ræða við fleiri aðila,“ segir Björn Ingi. „Það er bara verkefni okkar á næstunni að tryggja nægilegt fjármagn í formi hlutafjárs eða lánsfjármagns, til þess að geta komið öllu í gott stand hjá okkur.“

Ætlar að fá fjármuni til baka frá Birtíngi

Segir Björn Ingi ákvörðunina um að fækka útgáfudögum DV vera lið í því sem og ákvörðunina um að hætta við kaupin á Birtíngi. „Fækkun útgáfudaganna er umtalsverð aðgerð, sem og að hætta við kaupin á Birtíngi,“ segir Björn Ingi sem segir hagræðingaraðgerðnirnar ekki verða auðveldar.

„En þær eru nauðsynlegar í því umhverfi sem íslenskir fjölmiðlar búa við, þar sem stærsti samkeppnisaðilinn er ríkisútvarpið, sem tekur mjög til sín á auglýsingamrkaði. Auk þess erum við svo að etja kappi við nokkur stærstu fyrirtæki í heimi í samskiptum og á netinu, og er það ekki á jafnréttisgrundvelli, eins og öllum er kunnugt.

Það er óhjákvæmilegt að við þurfum að fækka starfsfólki eitthvað, en allar aðgerðir okkar miða að því að útgáfufélagið geti starfað áfram og komist í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika.“