Á næstu vikum eða mánuðum klárast nauðasamningar Glitnis og Kaupþings og færist stjórn gömlu bankanna þá úr höndum slitastjórna í hendur kröfuhafa. Með því fá kröfuahafar yfirráðarétt yfir eignum sínum, sem meðal annars eru Íslandsbanki og Arion banki. Heiðar Már Guðjónsson fjallar í grein í Fréttablaðinu í dag um mögulegar afleiðingar þess að ekki verði farið varlega í þessi valdaskipti.

„Hættan er sú að ef kröfuhafar undirrita nauðsamninga án þess að tryggt sé að þeir geti ekki komið eignum sínum út á undan öllum landsmönnum, þá skapist hér lögfræðilegt stríðsástand. Kröfuhafar munu stefna ef reynt verður að hefta útgreiðslur fra Íslandi eftir nauðsamninga og einnig mun innheimta lána á Íslandi leiða af sér erjur lántaka og lánadrottna. Ísland má síst af öllu við slíku þegar uppbyggingartími þarf að fara í hönd,“ segir Heiðar Már í greininni.

Hann bendir á að kröfuhafar gömlu bankanna séu ekki lengri tíma fjárfestar og því ólíklegt að þeir ætli sér að stunda bankastarfsemi á Íslandi um ókomna tíð. Taki þeir við stjórn bankanna sé því ekkert sem komi í veg fyrir að þeir loki starfsemi þrotabúanna á Íslandi og færi þau úr landi. „Þar með yrði íslensk löggjöf, sem hingað til hefur stýrt því að litlar sem engar greiðslur hafa átt sér stað, áhrifalaus. Nýju bankarnir yrðu þó enn á Íslandi, en nú nánast að fullu undir stjórn erlendra aðila.“ Hann segir að þeir gætu því vandræðalaust tryggt sér arðgreiðslur frá nýju bönkunum með einum eða öðrum hætti og sett sína hagsmuni framar hagsmunum íslenskra innlánseigenda í bönkunum.

Heiðar nefnir sem mögulega laus að samkvæmt íslenskum lögum væri hægt að binda útgreiðslur úr þrotabúum við íslenskar krónur og festa þannig erlenda kröfuhafa enn lengur á landinu. „En það er aðeins hægt að gera áður en nauðasamningar eru undirritaðir, en ekki eftir á,“ segir Heiðar.