Eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis hf. og Þorbjarnar hf. í Grindavík hafa ákveðið að halda áfram góðu samstarfi fyrirtækjanna tveggja en beinum viðræðum um sameiningu þeirra hefur verið formlega hætt.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum. Þar segir:

Viðræður um mögulega sameiningu hófust sl. haust og voru fjölmargir vinnuhópaðir skipaðir til að skoða alla snertifleti og hafa þeir nú skilað inn tillögum sínum. Eftir yfirferð þeirra er niðurstaðan sú að fara ekki með sameiningarmál lengra að sinni, en halda þess í stað góðu samstarfi Þorbjarnar hf. og Vísis hf. áfram og nýta niðurstöðu vinnuhópanna til að styrkja það samstarf enn frekar. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu nú, telja eigendur fyrirtækjanna tveggja að hún útiloki ekki aðra möguleika í framtíðinni.

Vísir og Þorbjörn eru rótgróin og öflug sjávarútvegsfyrirtæki, svipuð að stærð og hafa í gegnum árin unnið talsvert saman. Eiga þau meðal annars félög saman á borð við Haustak, Codland og sölufyrirtæki á Grikklandi.

Vel yfir 600 manns vinna hjá fyrirtækjunum tveimur sem samanlagt hafa um 44.000 tonn af aflaheimildum og er ljóst að gott samstarf mun gagnast fyrirtækjunum vel og auka sóknartækifæri þeirra á erlendri grundu.

Eins og Fiskifréttir greindu frá í september höfðu sameiningarhugmyndir fyrirtækjanna það að markmiði að búa til nýtt og kröftugt fyrirtæki sem jafnframt gæti fylgt eftir tækninýjungum og svarað aukinni kröfu markaða. Einnig var talið að nýtt félag myndi tryggja bolfiskvinnslu og styrkja samfélagið í Grindavík enn frekar.

Þá var áætlað að samruni af þessu tagi tæki allt að þremur árum og var ekki reiknað með uppsögnum í tengslum við hann, en breytingar á útgerðarháttum og mögulega einhverjum tilfærslum á störfum með tímanum var ekki útilokaðar.