Ekkert verður af samruna kapalfyrirtækjanna tveggja Comcast og Time Warner Cable, að því er segir í frétt USA Today. Samruni samskiptarisanna tveggja hefði numið um 45,2 milljörðum dala, andvirði um 6.150 milljörðum króna.

Þá hefur Comcast hætt við tengdan samruna við fyrirtækið Charter Communication. Ástæðan er mikil andstaða viðskiptavina Comcast og miklar líkur á því að bandarísk samkeppnisyfirvöld myndu stöðva samrunann.

Comcast og Time Warner Cable eru tvö stærstu kapalfyrirtæki Bandaríkjanna og með kaupum Comcast á síðarnefnda fyrirtækinu hefði Comcast komist með auðveldum hætti inn á markaði sem fyrirtækið er ekki með sterka stöðu fyrir, svo sem New York og Los Angeles. Sameinað fyrirtækið hefði ráðið yfir um helmingi netmarkaðarins í Bandaríkjunum og hefði haft enn sterkari samningsstöðu gagnvart framleiðendum efnis á netinu og kapalsjónvarpsstöðum.