Hætt hefur verið við samruna fyrirtækjanna Pfizer og Allergan. Samruninn, sem átti að vera einn sá stærsti í sögu lyfjaiðnaðarins, hefði hlaupið á 160 milljörðum Bandaríkjadala -  eða rúmlega 19 þúsund milljörðum íslenskra króna. Washington Post segir frá þessu.

Allergan, írskt fyrirtæki sem hefur höfuðstöðvar sínar í Dublin, starfar helst til við framleiðslu Botox-efna. Pfizer er einn stærsti lyfjaframleiðandi heims, en fyrirtækið er bandarískt. Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um samrunann áætlaða.

Samruninn hefði falið í sér að Pfizer hefði fært lögheimili sitt yfir Atlantshafið og þar með lækkað skattgreiðslur sínar til Bandaríkjanna talsvert.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna breytti þó löggjöf sinni á þann hátt að erfiðara hefði verið að ná þessum lækkunum í gegnum samrunann. Því var hætt við hann í heild sinni, en Pfizer greiddi Allergan 150 milljónir dala eða 18 milljarða króna í viðræðuslitabætur.