*

sunnudagur, 28. febrúar 2021
Innlent 21. desember 2020 15:15

Hætt við samruna Storytel og Forlagsins

Storytel mun ekki kaupa 70% hlut í Forlaginu, líkt og áður stóð til. Þess í stað munu félögin hefja samstarf um dreifingu hljóð- og rafbóka.

Ritstjórn
Storytel hugðist kaupa 70% hlut í Forlaginu en Stefán Hjörleifsson er framkvæmdastjóri Storytel hér á landi.
Aðsend mynd

Storytel AB, Storytel Iceland og Forlagið hafa undirritað langtímasamning um dreifingu hljóð- og rafbóka. Samningurinn felur í sér að ekki verður af fyrirhuguðum samruna sem tilkynnt var um í sumar, að því er segir í fréttatilkynningu.

Samkomulagið felur í sér „stórátak í raf- og hljóðbókavæðingu bóka Forlagsins og dreifingu efnisins hjá Storytel, að fengnu samþykki höfunda hverju sinni. Samningsaðilar hafa sett sér það markmið að framleiða að minnsta kosti 600 hljóðbækur á næstu árum, bæði nýja og gamla titla. Þetta þýðir að tilkynning um fyrirhugaðan samruna hefur formlega verið dregin til baka.“

Storytel greindi frá því 1. júlí síðastliðinn að félagið hygðist kaupa 70% hlut í Forlaginu, stærstu bókaútgáfu landsins. Mál og menning átti að fara áfram með 30% hlut í félaginu sem var ætlað að starfa áfram sem sjálfstætt bókaforlag.

„Það gleður mig innilega að viðskiptavinir Storytel á Íslandi munu fá að njóta hluta þess einstaka safns bókmennta sem Forlagið býr yfir. Undanfarna daga hafa Storytel og Forlagið leitað bestu mögulegu lausna fyrir íslenska hlustendur, lesendur og höfunda og útkoman er það samkomulag sem var undirritað í dag. Þetta er traustur samningur sem báðir aðilar eru sammála um að bæti hag neytenda sem og höfunda,“ segir Stefán Hjörleifsson, landsstjóri Storytel á Íslandi.

„Útgangspunkturinn hefur allan tímann verið sá að tryggja að hægt verði að stafvæða sem stærstan hluta útgáfusögu Forlagsins og gera almenningi aðgengilegan, öllum til hagsbóta. Með undirritun þessarar viljayfirlýsingar er stigið risastórt skref í átt að því að gera stóran hluta íslenskrar bókmenntasögu sem að miklu leyti hefur við óaðgengileg, aðgengilega að nýju,“ segir Egill Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins.

Stikkorð: Forlagið Storytel Storytel AB