Horn fjárfestingarfélag, dótturfélag Landsbankans, verður ekki skráð á markað líkt og stóð til, að minnsta kosti ekki á næstunni. Forsvarsmenn Landsbankans og Horns hafa á síðustu vikum átt í viðræðum við mögulega fjárfesta en samningar hafa ekki náðst. Til stóð að skrá Horn á markað í þessum mánuði eða þeim næsta.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að áform um skráningu Horns hafi breyst. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa fjárfestar talið verðmiða félagsins of háan, og viðræður strandað á því.

Meðal eigna Horns eru Intrum Justitia, tæplega 4% hlutur í Eimskip, 12,5% hlutur í Eyri Invest og 6,5% hlutur í Kauphöllinni í Osló.