Hætt hefur verið við skráningu Almenna leigufélagsins á aðalmarkað Kauphallarinnar. Þess í stað verður sérstakt fjárfestingaráð skipað. Þetta kemur fram í Markaðnum í dag.

Í grein Markaðarins er sagt að þetta hafi orðið niðurstaðan á fundi með sjóðsfélögum Almenna leigufélagsins eignarhaldssjóðs. Umræddur er sjóður er eigandi Almenna leigufélagsins og í stýringu hjá Kviku.

Í stað skráningar á aðalmarkað verður fimm manna fjárfestingaráð sett á laggirnar en ráðið verður skipað fulltrúum stærstu eigenda í sjóðnum. Sjóðurinn mun einnig tilnefna tvo í ráðið. Þá er til skoðunar að sjóðnum verði slitið fyrr en ráð var gert fyrir og þess í stað eignist sjóðsfélagar beint hlutabréf í leigufélaginu.

Almenna leigufélagið hagnaðist um 13 milljónir króna á fyrri árshelmingi. Eignasafn þess geymir um 1.200 íbúðir og heildareignir þess eru metnar á 48 milljarða.