Styrmir Þór Bragason, forstjóri og einn af eigendum Arctic Adventures, staðfestir í samtali við turista.is að söluviðræður við stórt erlent ferðaþjónustufyrirtæki hafi verið hætt á lokametrunum.

„Gjaldþrot Thomas Cook í byrjun vikunnar setti hins vegar strik í reikninginn hjá viðsemjendum okkar á ýmsan hátt og við vorum sammála um að setja viðræðurnar á ís,” segir Styrmir. Hann segir að eigendur hafi ákveðið eftir að upp úr viðræðunum slitnaði að hefja á ný undirbúning á skráningu félagsins í Kauphöll Íslands og samið hafi verið við Kviku Banka um að annast það ferli.

„Jafnframt verður áfram unnið að frekari stækkun félagsins með kaupum eða sameiningum við fyrirtæki sem styðja við skráningu sem og breikka vöruframboðið okkar,” segir Styrmir í samtali við turista.is

Tekjur Arctic Adventures námu 5.233 milljónum króna í fyrra og jukust um 52% milli ára. Hagnaður Straumhvarfs ehf. rekstrarfélagsins Arctic Adventures hagnaðist um 747 milljónir króna á síðasta ári sem ríflega tvöfalt meira en árið á undan samkvæmt ársreikningi félagsins.

Eignir félagsins námu 3.071 milljón í árslok og jukust um tæplega milljarð milli ára. Þar af nam handbært fé 685 milljónum og jókst um 655 milljónir á milli ára. Eigið fé nam 1.321 milljón í lok árs og eigin fjárhlutfall var 43%. Félagið greiddi 200 milljóna arðgreiðslu á síðasta ári auk þess sem félagið mun greiða 527 milljóna arðgreiðslu fyrir síðasta rekstrarár.