Frá því í sumar hefur verð á hráolíu lækkað um fimmtung og er komið úr 115 dollurum niður fyrir 90 dollara. Verðið hefur ekki verið lægra í tvö ár. Bæði Alþjóðaorkumálastofnunin og Samtök olíuútflutningslanda (OPEC) hafa lækkað eftirspurnarspár sínar og búist er við því að verð geti lækkað enn frekar.

Verið er að draga úr ýmsum stórum verkefnum í olíuiðnaðinum, að því er fram kemur í Economist. Til dæmis er 10 milljarða dollara verkefni bandaríska fyrirtækisins Chevron og austurríska fyrirtækisins OMV í Norðursjó í biðstöðu og verður það áfram nema olíuverð hækki á ný.

Breska fyrirtækið BP segist vera að fara yfir áætlanir sínar um olíuleit í Mexíkóflóa. Þá hefur Shell frestað leit að olíu í Alaska og verkefni Statoil í Barentshafi eru í óvissu. Auk þessara verkefna standa mörg stór olíufyrirtæki í niðurskurði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .