Sumarbústaður í eigu Gylfa Þórs Sigurðssonar knattspyrnumanns er ekki lengur á lista yfir fasteignir sem boðnar verða upp á fimmtudaginn næsta. Gera má ráð fyrir að Gylfi hafi náð sáttum við Skattinn sem fór fram á nauðungarsölu á sumarbústaðnum.

Um helgina fjölluðu fjölmiðlar um að byrjun uppboðs á sumarbústaðnum myndi fara fram á Selfossi á fimmtudaginn. Gerðarbeiðandi var Skatturinn sem hafði farið fram á fjárnám, sem er oft undanfari nauðungarsölubeiðnar, í eign Gylfa vegna 7,8 milljóna króna skattaskuldar. Höfuðstóll skuldarinnar var rúmlega 6,8 milljónir en dráttarvextir af skuldinni eru um 940 þúsund krónur

Starfsmaður embættis Sýslumannsins á Suðurlandi segir í samtali við Viðskiptablaðið að þegar eignir eru fjarlægðar af lista yfir fasteignir sem stendur til að bjóða upp þá hafi tiltekið uppboð annað hvort verið frestað eða fellt niður. Hann vildi ekki staðfesta hvort ætti við um bústaðinn hans Gylfa. Almennt ákveði gerðarbeiðendur þó ekki að fresta eða fella niður uppboð nema í þeim tilvikum þegar náðst hefur samkomulag við gerðarþola um greiðslu á kröfu.

Umræddur sumarbústaður er staðsettur í Grímsnes- og Grafningshreppi og hefur verið í eigu Gylfa frá árinu 2010. Bústaðurinn er 150 fermetrar og er fasteignamat eignarinnar 51 milljón króna en brunabótamat 71 milljón.

Gylfi Þór hefur sætt farbanni á Bretlandi frá því í júlí á síðasta ári vegna rannsóknar breskra stjórnvalda á meintu kynferðisbroti hans. Gylfi hefur verið samningsbundinn knattspyrnufélaginu Everton frá árinu 2017 en samningur hans rennur út í sumar. Hann hefur ekki verið hluti af leikmannahóp Everton á tímabilinu vegna málsins.