Framkvæmdir við kísilver United Silicon í Helguvík hafa verið stöðvaðar af hálfu verktakans ÍAV. Sigurður Ragnarsson, forstjóri ÍAV, segir forsvarsmenn kísilversins skulda verktakanum 1.000 milljónir króna.

Mbl hefur eftir Sigurði að ÍAV hafi aldrei kynnst svona framkomu þrátt fyrir að hafa verið í verktakabransanum í áratugi. „Það er ljóst að við get­um ekki haldið áfram störf­um ef við fáum ekki borgað,“ segir Sigurður. Hann segir málaferli vera í vændum. ÍAV sé nú að pakka saman og yfirgefa vinnusvæðið.

Litlu munaði að ÍAV myndi leggja niður störf snemma í júní, en þá náðu forsvarsmenn ÍAV og United Silicon samkomulagi um að framkvæmdir myndu halda áfram.