Bandaríska netbókabúðin Barnes & Noble ætla að hætta þróun og framleiðslu á Nook-spjaldtölvum og leitar nú eftir því að fá utanaðkomandi aðila til að gera það fyrir sig. Fyrirtækið ætlar engu að síður að halda sig við lesbrettin. Gengi hlutabréfa í Barnes & Noble féll um 15,7% eftir að greint var frá þessu í erlendum fjölmiðlum í dag. Ástæðan fyrir þessum umskiptum er sú að verslunin hefur tapað nær viðstöðulaust á framleiðslu spjaldtölvunnar.

Fram kemur í umfjöllun um málið á vef bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal að þetta marki þáttaskil í samkeppninni á spjaldtölvumarkaði enda ljóst að Barnes & Noble hafi helst úr lestinni í baráttunni við Apple, Google, Amazon og fleiri fyrirtæki.