Ráðgjöf sérfræðinga var oft keypt dýru verði á þeirri forsendu að hér á ferðinni væru afar færir og grandvarari sérfræðingar. Þetta segir Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, lögmaður og einn eigenda Málflutningsstofu Reykjavíkur. VIðskiptablaðið hefur fjallað um málsökn Toyota á Íslandi gegn Deloitte vegna ráðgjafar Deloitte um öfugan samruna. Annað fyrirtæki hyggst höfða mál gegn KPMG. Páll segir að fyrirtæki sem höfði ekki mál strax eigi það á hættu að kröfur þeirra fyrnist.

„ Þessi ráðgjöf var oft keypt dýru verði á þeirri forsendu að hér væru á ferðinni afar færir og grandvarir sérfræðingar. Ráðgjöf þeirra og reikningsskil voru hins vegar röng í þessum tilfellum. Tveir dómar fjölskipaðs Hæstaréttar staðfesta það sem og tugir ákvarðana Ríkisskattstjóra um endurálagningu. Þessi ranga ráðgjöf olli tjóni og það tjón ber að bæta. Mögulegt er að sækja það tjón, ekki bara álagið, heldur er í mörgum tilfellum hægt að sækja allt tjónið í heild sinni. Þannig geta fyrirtækin endurheimt þau verðmæti sem tapast hafa. Þetta verður auðvitað að skoða og reyna að forða því í lengstu lög að tjónið lendi að ósekju á hluthöfum eða öðrum,“ segir Páll Rúnar.